Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja | Logo
Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesjsa

1. Almenn ákvæði

1.1 Félagið heitir Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Nafn þess er skammstafað N.F.S. Markmið félagsins er að gæta hagsmuna félaga og vinna að áhugamálum þeirra.

1.2 Allir nemar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja eiga rétt á að ganga í félagið og greiða þá félagsgjaldið til að staðfesta inngöngu.

1.3 Allir þeir sem sitja í aðalstjórn, miðstjórn og nefndum N.F.S. skulu hafa greitt félagsgjald í N.F.S.

1.4 Allir félagar í N.F.S. skulu fá í hendur félagsskírteini fyrir hvert ár.

1.5 Nemandi getur sagt sig úr N.F.S. en fær félagsgjöldin ekki endurgreidd.

1.6 Aðsetur félagsins er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

1.7 Varnarþing félagsins er í Reykjanesbæ.

1.8 Bréf skal vera sent út, sem fylgja skal umsókninni um skólavist, þar sem útskýrt hvert hlutverk N.F.S. er og hverjir kostirnir eru við að ganga í félagið.

2. Stjórnskipan

2.1 Aðalstjórn

2.1.1. Aðalstjórn N.F.S. hefur ákvörðunar- og framkvæmdavald í öllum almennum málum N.F.S. milli félagsfunda.

2.1.2. Aðalstjórn N.F.S. hefur yfirumsjón með starfsemi allra nefnda, félaga og klúbba sem heyra undir N.F.S. og hefur rétt til þess að sitja fundi þeirra.

2.1.3. Aðalstjórn N.F.S skal gera starfsáætlun sem birt er í upphafi hverrar annar og skal hún vera öllum félagsmönnum aðgengileg á vef NFS.

2.1.4 Aðalstjórn N.F.S. hefur fulltrúa í skólanefnd sem skal vera formaður N.F.S.

2.1.5 Meðlimir aðalstjórnar N.F.S. mega sækja allar samkomur á vegum N.F.S. endurgjaldslaust.

2.1.6 Stjórnameðlimir aðal- og miðstjórnar skulu mæta á alla fundi N.F.S. sem þeir eru boðaðir á og skal formaður sjá til þess að halda utan um mætingar

2.1.7 Segi stjórnarmeðlimur upp starfi sínu eða hann sé rekinn skal boðað til kosninga innan tveggja vikna.

2.2 Miðstjórn

2.2.1. Miðstjórn skipa formenn allra nefnda og ráða á vegum N.F.S ásamt aðalstjórn.

2.2.2. Miðstjórn fundar minnst einu sinni í mánuði þar sem hún samræmir áætlanir sínar og býr til sameiginlegt tímaplan svo að ekki verði árekstrar atburða.

3. Aðalstjórn

3.1 Formaður

3.1.1. Formaður N.F.S. kemur fram fyrir hönd félagsins og gætir hagsmuna þess út á við.

3.1.2. Formaður N.F.S. hefur yfirumsjón með starfsemi N.F.S. í samráði við aðalstjórn félagsins.

3.1.3. Formaður N.F.S. sér um boðun almennra félagsfunda og stjórnun þeirra, en má þó skipa fundarstjóra úr hópi fundarmanna í sinn stað.

3.1.4 Formaður er annar tveggja nemenda í skólaráði.

3.1.5 Formaður er fulltrúi nemenda í skólanefnd.

3.1.6 Formaður skal vera orðinn 17 ára og hafa lokið 100 feiningum við framhaldsskóla, og geta sýnt fram á eðlilega námsframvindu. Þá skal formaður hafa þekkingu á félagsstörfum.

3.1.7 Formaður skal annast greiðslur og fjárveitingar úr nemendasjóði í fjarveru gjaldkera.

3.1.8 Formaður ásamt gjaldkera þurfa að samþykkja öll útgjöld N.F.S.

3.1.9 Ef stjórnameðlimur er ekki að standa sig að mati formanns eða gerist brotlegur við skólareglur, má formaður víkja viðkomandi úr stjórn eftir að hafa ráðfært sig við skólameistara.

3.1.10 Formaður stýrir miðstjórnarfundi N.F.S.

3.2 Varaformaður

3.2.1. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

3.2.2. Varaformaður situr í þemadaganefnd.

3.2.3. Varaformaður er tengiliður aðalstjórnar N.F.S. við öll félög innan N.F.S.

3.2.4. Varaformaður er ferðamálafulltrúi N.F.S.

3.2.5. Varaformaður er formaður árshátíðarnefndar.

3.2.6. Varaformaður skal sjá um að ritaðar séu fundargerðir stjórnarfunda, funda með tengiliði við kennara og félagsfunda.

3.2.7. Varaformaður skal halda fundargerðabók sem skal vera öllum opin.

3.2.8. Varaformaður er formaður kjörstjórnar kosninga N.F.S..

3.3 Gjaldkeri

3.3.1. Gjaldkeri skal hafa yfirumsjón með öllum fjárreiðum N.F.S.

3.3.2. Gjaldkeri skal hafa yfirumsjón með innheimtu félagsgjalda N.F.S.

3.3.3. Gjaldkeri skal annast allar greiðslur og fjárveitingar úr nemendasjóði í samráði við aðalstjórn.

3.3.4. Gjaldkeri skal færa bókhald N.F.S. og halda eignaskrá.

3.3.5. Gjaldkeri skal leggja fram reikninga til endurskoðunar í lok uppgjörstímabils eða að kröfu aðalstjórnar N.F.S., eða félagsfundar.

3.3.6. Gjaldkeri skal leggja fram skriflega skýrslu og reikninga á félagsfundi eftir lok tímabilsins. Þegar nýr gjaldkeri tekur við embætti skal fráfarandi gjaldkeri afhenda honum öll bókhaldsgögn.

3.3.7. Gjaldkeri sér um fjármál allra nefnda.

3.3.8. Gjaldkeri skal vera orðinn 18 ára og hafa lokið við tölvubókhaldsáfanga. Gera má undantekningu á því, með leyfi skólastjórnenda. Einnig þarf gjaldkeri að hafa lokið 100 feiningum við framhaldsskóla, og geta sýnt fram á eðlilega námsframvindu.

3.3.9. Gjaldkeri skal leggja fram uppgjör hvers mánaðar fyrir stjórn N.F.S. á fyrsta fundi hvers mánaðar.

3.3.10. Gjaldkeri ásamt formanni þurfa að samþykkja öll útgjöld N.F.S.

3.4 Framkvæmdastjóri

3.4.1. Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með starfsemi skemmtinefndar, íþróttaráðs, Vox Arena og Tækninefndar í samráði við aðalstjórn N.F.S.

3.4.2. Framkvæmdastjóri situr í árshátíðarnefnd.

3.4.3. Framkvæmdastjóri situr í þemadaganefnd.

3.4.4. Formaður skal vera orðinn 17 ára og hafa lokið 100 feiningum við framhaldsskóla, og geta sýnt fram á eðlilega námsframvindu. Þá skal formaður hafa þekkingu á félagsstörfum.

3.5 Markaðsstjóri

3.5.1. Markaðsstjóri skal hafa yfirumsjón með allri þeirri markaðssetningu og kynningu sem snýr að N.F.S.

3.5.2. Markaðsstjóri skal sjá um að útbúa félagsskírteini fyrir alla meðlimi N.F.S.

3.5.3. Markaðsstjóri skal sjá um styrkveitingar og –beiðnir í samráði við stjórn N.F.S.

3.5.4. Markaðsstjóri skal hafa yfirumsjón með auglýsingamálum N.F.S. í samráði við stjórn N.F.S.

3.5.5. Markaðsstjóri ræður 4 meðlimi í N.F.S., úr hópi umsækjenda, sér til aðstoðar í markaðsnefnd. Einn þeirra skal valinn úr hópi nýnema.

3.5.6. Markaðsstjóri hefur yfirumsjón með vefnefnd og auglýsinganefnd N.F.S og þannig yfirmaður heimasíðu félagsins.

4. Nefndir

4.1 Almenn ákvæði

4.1.1. Nefndir innan N.F.S. standa öllum félagsmönnum N.F.S. opnar, nemendum utan N.F.S. er ekki heimilt að ganga í þær nefndir, sem eru undir N.F.S.

4.1.2. Allar nefndir innan N.F.S. skulu kynntar á þar til ætlaðri kynningu eigi síðar en í 4. viku haustannar. Kynningin skal skipulögð af formönnum nefndanna í samráði við stjórn N.F.S.

4.1.3. Ráða skal í nefndir síðasta lagi 1. viku eftir kynningu.

4.1.4 Öllum formönnum nefnda ber að standa skil á annaráætlun og reglum sinnar nefndar til stjórnar N.F.S. í upphafi hverrar haustannar.

4.2 Skemmtinefnd

4.2.1. Skemmtinefnd skipa formaður, þrír meðstjórnendur, þar af einn nýnemi og formaður nýnemaráðs.

4.2.2. Formaður skal kosinn á vorönn samkvæmt gr. 9.3.2.

4.2.3. Meðstjórnendur skulu valdir úr hópi umsækjenda að hausti af stjórn N.F.S.

4.2.4. Starfsvið skemmtinefndar er að sjá um dansleiki, tónleika, spilakvöld, skemmtikvöld, jólahátíð

4.2.5. Skemmtinefnd sér um árshátíð N.F.S. í samvinnu við árshátíðarnefnd.

4.2.6. Skemmtinefnd tekur virkan þátt í þemadögum í samvinnu við þemadaganefnd.

4.3 Íþróttaráð

4.3.1. Íþróttaráð skipa íþróttameistari, þrír meðstjórnendur og einn nýnemi.

4.3.2. Formaður skal kosinn á vorönn samkvæmt gr. 9.3.2.

4.3.3. Meðstjórnendur skulu valdir úr hópi umsækjenda að hausti af stjórn N.F.S.

4.3.4. Íþróttaráð skal sjá um framkvæmd allra íþróttamóta og íþróttahátíða á vegum N.F.S.

4.4 Ritstjórn

4.4.1. Ritstjórn er skipuð ritstjóra og fjórum meðstjórnendum.

4.4.2. Ritstjóri Vizkustykkis skal kosinn á vorönn samkvæmt gr. 9.3.2.

4.4.3. Meðstjórnendur skulu valdir úr hópi umsækjenda að hausti af stjórn N.F.S.

4.4.4. Ritstjórn gefur út skólablað N.F.S., Vizkustykki.

4.4.5. Skólablaðið birtir fréttir af skólalífinu jafnframt því sem það er vettvangur lista- og þjóðfélagsumræðu í víðustu merkingu.

4.5 Vefnefnd

4.5.1. Vefnefnd er skipuð vefstjóra og meðstjórnanda.

4.5.2. Vefstjóri skal skipaður af aðalstjórn í lok vorannar hvers skólaárs.

4.5.3. Meðstjórnandi skal skipaður af aðalstjórn í byrjun haustannar hvers skólaárs.

4.5.4. Vefnefnd skal sjá um uppfærslur á heimasíðu N.F.S og einnig innsetningu frétta og mynda.

4.6 Árshátíðarnefnd

4.6.1. Í árshátíðarnefnd eiga sæti: Varaformaður aðalstjórnar, sem er jafnframt formaður nefndarinnar framkvæmdastjóri N.F.S. og þrír meðstjórnendur.

4.6.2. Meðstjórnendur skulu skipaðir af stjórn N.F.S. úr hópi umsækjenda í upphafi vorannar.

4.6.3. Árshátíðarnefnd skal starfa í nánu sambandi við skemmtinefnd.

4.7 Þemadaganefnd

4.7.1. Í þemadaganefnd eiga sæti auk kennara: Framkvæmdastjóri, formaður íþróttaráðs og varaformaður stjórnar N.F.S.

4.7.2. Þemadaganefnd skal sjá um skipulagningu og framkvæmd þemadaga sem haldnir eru á vorönn ár hvert.

4.7.3. Þemadaganefnd starfar í nánu sambandi við skemmtinefnd N.F.S.

4.7.4. Þemadaganefnd skal skila af sér skýrslu í lok vorannar til skólastjórnar.

4.8 Skólaþáttur

4.8.1. Skólaþáttur N.F.S. ber heitið Hnísan.

4.8.2. Skólaþáttarnefnd skipa allt að 7 meðlimir í N.F.S., valdir af stjórn N.F.S., úr hópi umsækjenda á vorönn. Einn meðlima skal skipaður umsjónarmaður þáttarins.

4.8.3. Hlutverk skólaþáttar er fyrst og fremst að skemmta nemendum og mynda félagslíf skólans eins og það leggur sig.

4.8.4. Skólaþátturinn skal sýndur, að fengnu samþykki skólameistara, inni í fyrirlestrarsal F.S. a.m.k. tvisvar sinnum á önn í hádegishléi á föstudegi.

4.8.5. Skólaþáttarnefnd hefur fullan aðgang að upptöku- og klippingabúnaði skólans í samráði við umsjónarmenn skólans.

4.8.6. Nemendur skulu hafa greiðan aðgang að þættinum á heimasíðu nemendafélagsins.

4.9 Vox Arena

4.9.1. Vox Arena er listaráð N.F.S. og sér um skipulagningu leiksýninga, söngleikja, ljósmyndasýninga, myndlistarsýninga og alls þess sem list getur talist.

4.9.2. Yfirmaður stjórnar Vox Arena kallast inspector, kosinn á vorönn samkvæmt gr. 9.3.2.. Undir inspector heyra þrír meðstjórnendur og einn nýnemi, valdir úr hópi umsækjenda.

4.9.3. Stjórn listaráðs skal hafa samráð við þá hópa sem starfa á sviði lista innan N.F.S.

4.10 Stríðsnefnd

4.10.1. Stjórn stríðsnefndar skipa 5 einstaklingar, valdir af stjórn N.F.S. Formaður stríðsnefndar kallast General.

4.10.2. Hlutverk stríðsnefndar er að efla liðsanda félagsmanna N.F.S. eftir fremsta megni. Stríðsnefnd er jafnframt klapplið skólans á hverjum þeim keppnum sem skólinn tekur þátt í og skipuleggur allt það sem snýr að yfirburðum Fjölbrautaskóla Suðurnesja gagnvart óheppnum andstæðingi.

4.10.3. Allir meðlimir nemendafélagsins geta skráð sig í stríðsnefnd og skulu gæta að orðstír skólans í hvívetna.

4.11 Málfundafélagið Kormákur

4.11.1. Málfundafélagið Kormákur gætir hagsmuna Gettu betur- og MORFÍs-liða skólans og hefur yfirumsjón með allri starfsemi sem tengist þátttöku skólans í viðkomandi keppnum.

4.11.2. Kosið er um formann Kormáks á vorönn samkvæmt gr. 9.3.2. Fjórir meðstjórnendur skulu verða valdnir úr hópi umsækjenda á haustönn af stjórn N.F.S. og formanni Málfundafélagsins. Einn nefndarmanna skal vera úr hópi nýnema.

4.11.3. Formaður málfundafélagsins skal, í samráði við stjórn, útvega Gettu betur- og MORFÍs-liðunum þjálfara og vera tengiliður stjórnar við Gettu betur- og MORFÍs-keppnirnar.

4.11.4. Málfundafélagið skal standa fyrir innanskólaræðukeppni.

4.11.5. Málfundafélagið skal standa fyrir innanskólaspurningakeppni.

4.11 Skólaráðsfulltrúar

4.12.1. Í skólaráði sitja 2 fulltrúar nemenda. Þeir skulu vera formaður stjórnar N.F.S. og fulltrúi kosinn á hausti á félagsfundi. Einnig skal kjósa varamann.

4.12.2. Varaformaður aðalstjórnar N.F.S. er varamaður formanns aðalstjórnar N.F.S. í skólaráði.

4.12.3. Skólaráðsfulltrúar skulu gæta hagsmuna nemenda gagnvart skólayfirvöldum.

4.12.4. Skólaráðsfulltrúi skal í upphafi hverrar annar kynna starfsvið sitt fyrir nemendur.

4.12.5. Skólaráðsfulltrúi skal vera tengiliður milli N.F.S. og félags framhaldsskólanema.

5. Aðalfundur

5.1. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

5.2. Aðalfundur skal haldinn á seinni hluta vorannar ár hvert.

5.3. Aðalfundur er aðeins lögmætur ef til hans er boðað með viku fyrirvara og ef a.m.k. 20% félagsmanna sitja fundinn.

5.4 Dagskrá aðalfundar skal vera:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 • Skýrsla formanns.
 • Lagabreytingar.
 • Önnur mál.

5.5 Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða enda séu a.m.k. 20% félagsmanna á fundi.

5.6 Tillögur um lagabreytingar eru aðeins gildar að þær hafa legið frammi minnst tvo sólarhringa fyrir aðalfund á skrifstofu N.F.S. og í matsal nemenda.

5.7 Önnur almenn ákvæði um félagsfundi gilda um aðalfundi nema annað sé tekið fram í lögum.

6. Félagsfundir

6.1. Félagsfundir N.F.S. hafa æðsta vald í öllum sameiginlegum málum nemenda milli aðalfunda.

6.2. Félagsfundur skal haldinn í upphafi haustannar þar sem stjórn N.F.S. og félagsstarfsemi N.F.S. skal vera kynnt.

6.3. Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á þeim.

6.4 Öllum formönnum nefnda og ráða ber að standa skil á áætlun og reglum sinna félaga til aðalstjórnar N.F.S. í upphafi hverrar haustannar og skulu þær kynntar á félagsfundi.

6.5 Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða á félagsfundum ræður samþykktum hans nema annað sé tiltekið í lögum.

6.6 Formaður N.F.S. boðar til félagsfunda og stjórnar þeim.

6.7 Boða má til félagsfundar með sólarhrings fyrirvara. Í fundarboðum skal koma fram: Fundarstaður, tími og dagskrá.

7. Fjármál

7.1. Hverju skólaári skal skipt í tvö uppgjörstímabil. Hið fyrra nær yfir tímabilið 1.7. – 31.12. Hið seinna 1.1. – 30.6.

7.2. Aðalstjórn N.F.S. skal ákveða félagsgjald ár hvert og skal það greitt fyrirfram á þar til gerðum gíróseðlum.

7.3. Verði einhver meðlima aðal- eða miðstjórnar N.F.S. uppvís af því að hafa misnotað peninga nemendafélagsins á einn eða annan hátt skal honum umsvifalaust vikið úr starfi af skólastjórn.

8. Kjörstjórn

8.1. Í kjörstjórn eiga sæti þrír menn. Varaformaður N.F.S. er sjálfskipaður formaður en aðrir stjórnarmenn skulu skipaðir af stjórn. Þá er tengiliður kennara eftirlitsmaður með störfum kjörstjórnar.

8.2. Kjörstjórn sér um framkvæmd kosninga. Hún sér um að auglýsa kjördag og framboð.

8.3. Kjörstjórn skal sjá til þess að kosningar fari skipulega og löglega fram.

8.4. Kjörstjórn tekur við framboðum.

8.5. Frambjóðendur skulu tilkynna framboð sitt til kjörstjórnar eigi síðar en viku fyrir kosningar. Þá er listi yfir frambjóðendur gerður opinber.

8.6. Kjörstjórn hefur aðsetur á skrifstofu N.F.S.

8.7. Kjörstjórn skal sjá um framboðsfund er halda skal á kjördag. Á honum skulu frambjóðendur kynntir og þeim gefinn kostur á að taka til máls.

8.8. Kjörstjórn telur atkvæði ásamt tengiliði við kennara og skulu úrslit birt eigi síðar en næsta skóladag. Ef atkvæði falla jöfn skal kjósa um tvo þá efstu og skulu þær kosningar fara fram eigi síðar en næsta skóladag.

9. Kosningar

9.1. Kjörstjórn sér um framkvæmd kosninga.

9.2. Vorkosningar skulu fara fram eigi síðar en í árshátíðarviku N.F.S.

9.3. Kosningar í embætti á vorönn

9.3.1. Kosið skal í eftirfarandi embætti í aðalstjórn:

 • Formann
 • Varaformann
 • Gjaldkera
 • Framkvæmdastjóra
 • Markaðsstjóra

9.3.2. Kosið skal í eftirfarandi embætti í miðstjórn:

 • Formann Málfundafélagins Kormáks
 • Formann skemmtinefndar
 • Formann íþróttanefndar
 • Formann Vox Arena
 • Ritstjóra Vizkustykkis
 • Berist ekki framboð í eitthvert ofantalinna embætta, áskilur aðalstjórn N.F.S. sér þann rétt að ráða í viðkomandi embætti eða láta kjósa í upphafi haustannar.

9.4. Frambjóðendur í vorkosningum skulu hafa lokið að minnsta kosti einni önn í skólanum. Kjörgengi formanns og gjaldkera er einnig háð því að þeir verði tvær næstu annir í skólanum. Þá þurfa formaður og gjaldkeri að hafa lokið 80 einingum í framhaldsskóla. Framkvæmdastjóri þarf að hafa lokið þrem önnum í námi á framhaldsskólastigi. Einnig þurfa allir frambjóðendur, ásamt öllum formönnum nefnda, að geta sýnt fram á eðlilega námsframvindu.

9.5. Haustkosningar skulu fara fram eigi síðar en í 4. viku haustannar.
Kosið skal í eftirfarandi embætti:

 • Nýnemaráð

9.6. Kosningar eru löglegar ef minnst 50% félagsmanna nýta atkvæðisrétt sinn.

9.6.1. Kosningar skulu vera leynilegar.

9.6.2. Kosningarétt hafa allir félagar í N.F.S.

9.6.3. Áróður á kjörstað er óheimill og sker kjörstjórn úr um ágreining þess efnis.

9.6.4. Frambjóðandi telst aðeins hafa náð kjöri hafi hann náð 50% greiddra atkvæða eða meira.

9.6.4.1. Ef þrír eða fleiri nemendur eru í framboði í sama embætti og ef enginn þeirra hlýtur meira en 50% atkvæða er kosið á ný, milli tveggja efstu frambjóðenda, næsta skóladag.

9.6.5. Kærufrestur vegna kosninga er ein skólavika. Laganefnd skólans mun fjalla um kærur og taka lokaákvörðun. Úrskurður laganefndar skal koma innan þriggja skóladaga.

9.6.5.1. Í laganefnd eiga sæti skólameistari, aðstoðarskólameistari og formaður kjörstjórnar.

9.6.5.2. Nái kæra fram að ganga skal endurtaka kosningar innan einnar skólaviku.

9.6.6. Allar umsóknir um embætti innan nemendafélagsins skulu vera leynilegar þar til umsóknarfrestur er liðinn.

9.6.7. Komi fram vantrauststillaga á embættismenn N.F.S., undirrituð af minnst 10% félaga, skal boðað til félagsfundar þar sem tillagan er rædd. Ef tillagan er samþykkt boðar kjörstjórn til leynilegra kosninga með sama sniði og vor- og haustkosningar.

9.6.8. Sé stjórnarmeðlimur rekinn eða hafi hann sagt upp störfum, má hann ekki bjóða sig fram að nýju nema með leyfi skólameistara.

10. Varðveisla laganna

10.1. Lögin skulu varðveitt í tveimur samhljóða eintökum. Annað skal liggja frammi á skrifstofu N.F.S., nemendum til halds og trausts, og til að hafa við höndina þegar útkljáð eru deilumál innan félagsins og þarfnast úrskurðar. Hitt eintakið skal varðveitt á skrifstofu skólameistara og vera hinu eintakinu áreiðanlegra ef upp kemur misræmi milli þessara eintaka.

10.2. Varðveisla laganna er á ábyrgð varaformanns N.F.S. og skal hann færa allar breytingar á lögunum inn jafnskjótt og þær eru gerðar.

10.3. Komi upp ágreiningur um túlkun laganna, sker laganefnd úr.

11. Um gildi laganna

11.1. Lög þessi öðlast þegar gildi og falla önnur fyrri lög N.F.S. úr gildi.